Fótbolti

Gylfi Þór ekki með í síðasta landsleik ársins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson æfði með sjúkraþjálfara í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson æfði með sjúkraþjálfara í dag. vísir/epa
Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður íslenska landsliðsins í fótbolta verður ekki með strákunum okkar þegar þeir mæta Möltu í vináttuleik ytra annað kvöld vegna meiðsla.

Þetta kemur fram á fótbolti.net en þar segir Gylfi Þór: „Ég lenti illa á hnénu í leiknum gegn Króötum og er ennþá svolítið tæpur. Þó að ég væri í toppstandi þá myndi ég búast við að Heimir myndi breyta liðinu algjörlega og gefa þeim strákum sem hafa ekkert verið að spila undanfarið sénsinn á að spila 90 mínútur.“

Gylfi segist reikna með því að vera klár í slaginn með Swansea um helgina þegar liðið mætir Everton en bláliðar Liverpool-borgar gerðu 20 milljóna punda tilboð í íslenska landsliðsmanninn í sumar.

Aron Elís Þrándarson, leikmaður Álasund í Noregi, verður heldur ekki með í leiknum. Hann er tognaður og æfði ásamt Gylfa sérstaklega með Friðriki Ellert Jónssyni, sjúkraþjálfara íslenska liðsins, á Möltu í dag.

Aron Elís var kallaður inn í hópinn vegna meiðsla Emils Hallfreðssonar og hefði líklega fengið tækifæri til að spila sinn annan landsleik á morgun. Hann þreytti frumraun sína með íslenska liðinu gegn Bandaríkjunum í lok janúar á þessu ári.

Vináttulandsleikurinn gegn Möltu verður sá síðasti hjá strákunum okkar á þessu magnaða fótboltaári 2016. Hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 17.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×