Innlent

Reiknað með að Bjarni hrökkvi eða stökkvi í dag

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. Vísir/Ernir
Allt bendir til að formaður Sjálfstæðisflokksins geri forseta Íslands grein fyrir því í dag hvort honum hafi tekist að koma á formlegum stjórnarmyndunarviðræðum um myndun meirihluta á Alþingi eða hvort hann hafi hætt stjórnarmyndunartilraunum sínum.

Viðræður Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar eru sagðar stranda á orðalagi um þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknarferli að Evrópusambandinu í stjórnarsáttmála.

Eins og kom fram í fréttum Stöðvar tvö í gær vilja forystumenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar ekki hefja formlegar stjórnarmyndunarumræður fyrr en málamiðlun tekst um grundvallar ágreiningsatriði. Helstu ágreiningsatriðin snúa að kerfisbreytingum í landbúnaði og sjávarútvegi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu ber þó mest á milli varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB en Bjarni Benediktsson hefur lýst því yfir að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald umsóknarviðræðna við Evrópusambandið feli í sér pólitískan ómöguleika á meðan hinir flokkarnir tveir hafa þjóðaratkvæðagreiðslu á stefnuskrá sinni.

Síðasta sólarhringinn hafa flokkarnir reynt að finna flöt á orðalagi um málið í í mögulegum stjórnarsáttmála en án árangurs hingað til. Þingmenn viðreisnar og Bjartrar framtíðar segja boltann vera hjá Bjarna sem þarf líka að ná sátt um þessi mál í sínum þingflokki.

Ekki er á dagskrá að formenn flokkanna þriggja fundi í dag en það getur breyst með stuttum fyrirvara. Engir fundir eru heldur fyrirhugaðir hjá þingflokki Sjálfstæðismanna, Bjartri framtíð og viðreisn. En þingflokkar tveggja síðarnefndu flokkanna funduðu sameiginlega í gær áður en formenn þeirra hittu Bjarna síðdegis.

Málið er því í biðstöðu eins og er og má heyra á þingmönnum flokkanna þriggja að beðið sé eftir að sjá hvað Bjarni geri í dag. En hann hefur gefið út að hann muni gefa forseta svar fyrir lok vikunnar og má reikna með að forsetinn geri ráð fyrir að það gerist fyrir helgina.

Það heyrist á þingmönnum Sjálfstæðisflokks að Bjarni Benediktsson hafi fullt umboð frá þingflokknum til að ákveða framhaldið. Hann gæti því farið á fund forseta til að skila umboði til stjórnarmyndunar án þess að fundað verði sérstaklega um málið innan þingflokksins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×