Fótbolti

Silfurmaðurinn Grant nefndur sem mögulegur arftaki Klinsmanns

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tekur Avram Grant við bandaríska landsliðinu?
Tekur Avram Grant við bandaríska landsliðinu? vísir/getty
Bruce Arena og Avram Grant þykja líklegastir til að taka við bandaríska karlalandsliðinu í fótbolta sem er í þjálfaralet eftir að Jürgen Klinsmann var rekinn í gær.

Hinn 65 ára gamli Arena þjálfaði bandaríska landsliðið á árunum 1998-2006 og kom því m.a. í 8-liða úrslit á HM 2002. Flest bendir til þess að hann taki við Bandaríkjunum á nýjan leik.

Frá 2008 hefur Arena stýrt Los Angeles Galaxy með góðum árangri. LA Galaxy hefur þrívegis orðið bandarískur meistari undir stjórn Arena.

Avram Grant, fyrrverandi knattspyrnustjóri Chelsea, kemur einnig til greina sem næsti þjálfari Bandaríkjanna.

Ísraelsmaðurinn býr yfir mikilli reynslu en hann hefur bæði þjálfað félags- og landslið á ferlinum.

Frá 2014 hefur hann verið landsliðsþjálfari Ghana. Hann kom liðinu í úrslit Afríkukeppninnar í fyrra.

Grant er þekktastur fyrir tíma sinn á Englandi þar sem hann stýrði Chelsea, Portsmouth og West Ham United.

Undir hans stjórn endaði Chelsea í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar tímabilið 2007-08 og tapaði bæði í úrslitum Meistaradeildar Evrópu og enska deildarbikarsins. Portsmouth og West Ham féllu bæði úr ensku úrvalsdeildinni undir stjórn Grants.

Eftir töp fyrir Mexíkó og Kosta Ríku fyrr í mánuðinum eru Bandaríkin á botni síns riðils í undankeppni HM 2018.


Tengdar fréttir

Klinsmann rekinn

Jürgen Klinsmann hefur verið rekinn úr starfi þjálfara bandaríska karlalandsliðsins í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×