Ef grunnskólakennarar samþykkja nýjan kjarasamning þá mun samningurinn kosta Sveitarfélagið Árborg 147 milljónir króna samkvæmt upplýsingum frá Þorsteini Hjartarsyni, fræðslustjóra. Um er ræða 119 stöðugildi kennara á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri.
En þarf að grípa til einhverra aðhaldsaðgerða hjá sveitarfélaginu komi þessar launahækkanir til?
„Í fjárhagsáætlun 2017 er gert ráð fyrir fjármunum v/launahækkana kennara sem duga þó ekki alveg til að dekka þessa hækkun, enda lá ekki fyrir hver hún yrði þegar fyrri umræða fór fram í síðasta mánuði. Fara þarf betur yfir málið fyrir seinni umræðu fjárhagsáætlunar, en ef tekst að koma lífeyrisfrumvarpinu í gegnum Alþingi fyrir áramót mun það létta verulega á greiðslum Árborgar á mótframlagi í lífeyrissjóð. Þær gætu jafnvel lækkað um rúmlega 100 milljónir sem kæmi sér auðvitað afar vel“, segir Þorsteinn Hjartarson.
Atkvæðagreiðsla grunnskólakennara um nýjan kjarasamning stendur yfir til klukkan 16 mánudaginn 12. desember.

