Körfubolti

Toronto með stærsta sigurinn í sögu félagsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bakvarðasveit Toronto Raptors var öflug að vanda í nótt.
Bakvarðasveit Toronto Raptors var öflug að vanda í nótt. Vísir/getty
Toronto Raptors gekk frá Atlanta Hawks í NBA-deildinni í nótt en leiknum lauk með 44 stiga sigri Toronto, 128-84 en aldrei áður hafði Toronto unnið leik með jafn stórum mun.

Var þetta önnur rassskellingin í röð sem Atlanta-menn fá eftir 36 stiga tap gegn Detroit Pistons í gær en Toronto vann einnig stóran sigur á Los Angeles Lakers kvöldið áður 113-80.

Munurinn var ekki nema sextán stig fyrir lokaleikhlutann en þá skelltu Toronto-menn í lás í vörninni ásamt því að salla niður 42 stigum á gestina.

Bakvörðurinn Kyle Lowry daðraði við þrefalda tvennu með 17 stig, átta fráköst og átta stoðsendingar en stigaskorunin dreifðist afar vel hjá liðinu.

Meistaraefnin í Golden State Warriors komust aftur á sigurbraut með 29 stiga sigri á Phoenix Suns á heimavelli 138-109 en eftir að hafa náð forskotinu af Phoenix í fyrsta leikhluta leiddi Golden State til enda leiksins.

Verðmætasti leikmaður deildarinnar undanfarin tvö ár, Steph Curry, var stigahæstur í liði Golden State með 31 stig en hann hitti úr fimm af þriggja stiga skotunum sínum.

Leikir gærdagsins:

Milwaukee Bucks 112 -103 Brooklyn Nets

Charlotte Hornets 120-125 Minnesota Timberwolves

Toronto Raptors 128-84 Atlanta Hawks

Philadelphia 76ers 106-107 Boston Celtics

Memphis Grizzlies 103-100 Los Angeles Lakers

Dallas Mavericks 107-82 Chicago Bulls

Utah Jazz 105-98 Denver Nuggets

Portland Trailblazers 99-92 Miami Heat

Golden State Warriors 138-109 Phoenix Suns

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×