Körfubolti

Myndband og myndir frá tilfinningaríku kveðjukvöldi Tim Duncan í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Duncan endaði leikmannaferil sinn formlega í nótt þegar San Antonio Spurs heiðraði hann með því að setja treyju hans upp í rjáfur í AT&T Center höllinni í San Antonio.

Það þarf ekki að koma á óvart að þetta var vel skipulögð og glæsileg viðhöfn en samt var og varð að vera Tim Duncan stíll á henni.

Tim Duncan er ekki mikið fyrir að sýna sig eða leitast eftir óþarfa athygli en lét sig „hafa það“ að þakka fyrir sig í nótt. Með honum voru kærasta hans og börnin hans tvö úr fyrra sambandi.

Það féllu mörg góð og falleg orð en ást og þakkalæti fyrrum liðsfélaga, þjálfara og stuðningsmanna skein frá hverju andliti.

Þetta var því tilfinningarík stund þegar bæði Tim Duncan og nokkrir fyrrum liðsfélagar og þjálfarar hans héldu stuttar ræður. Tim Duncan var ekki alveg á heimavelli undir sviðsljósinu en fáir leikmenn hafa gert meira fyrir eitt félag en einmitt hann.

Tim Duncan lék í nítján tímabil með San Antonio Spurs og varð NBA-meistari fimm sinnum.



Liðsfélagarnir Tony Parker og Manu Ginobili töluðu fallega um Tim Duncan en leyfðu sér líka að skjóta aðeins á karlinn sem hlustaði og hló meira að segja líka með öllum hinum.

Duncan er áttundi leikmaður San Antonio Spurs sem fær treyju upp í rjáfur en hinir eru James Silas, George Gervin, Johnny Moore, David Robinson, Sean Elliott, Avery Johnson og Bruce Bowen en þeir fjórir síðustu léku allir með Duncan.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá athöfninni og í spilaranum hér fyrir ofan er stutt samantekt frá NBA-deildinni.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×