Skoðun

Egyptar fleyta pundinu

Lars Christensen skrifar
Egyptar tóku djarfa en rétta ákvörðun í síðasta mánuði með því að taka upp fljótandi gengi pundsins. Þessi aðgerð gat ekki annað en orðið óvinsæl því gjaldmiðillinn féll þegar í stað um 48 prósent gagnvart bandaríska dollarnum og missti þannig helming verðgildis síns. Afleiðingin var skyndileg verðhækkun á almennum neysluvörum sem lækkaði kaupmátt margra Egypta, jafnt fátækra sem miðstéttarfólks.

Þetta er vissulega sorglegt en við verðum að huga að hinum kostinum. Að halda þeirri stefnu áfram að reyna að festa egypska pundið við allt of hátt gengi jafngilti sífellt hertari peningamálastefnu. Það þrýsti á heildareftirspurnina á sama tíma og hagkerfið þurfti að takast á við neikvæðan framboðsskell vegna mikillar pólitískrar óvissu og skorts á grundvallarumbótum.

Í raun hafði egypska hagkerfið undanfarin ár lent í kreppuverðbólgu – ástandi þar sem verðbólga hefur aukist vegna neikvæðs framboðsskells og sífellt hertari peningamálastefna veldur því að hagvöxtur minnkar. Með því að fleyta pundinu hafa Egyptar að minnsta kosti numið úr gildi peningahömlur á heildareftirspurnina. Það var áfall fyrir flesta Egypta þegar pundið var sett á flot og þeir sáu helming verðgildis þess gufa upp á nokkrum mínútum. En það er þess virði að hafa í huga að fyrir land með veikar pólitískar stofnanir og veikt hagkerfi er algerlega nauðsynlegt að hafa veikan gjaldmiðil líka.

Fall pundsins orsakaðist í raun ekki af þeirri ákvörðun egypska seðlabankans að taka upp fljótandi gengi. Þetta var ekki gengisfelling – það var markaðurinn sem ákvarðaði hvert grunnvirði gjaldmiðilsins væri, byggt á ástandi egypska hagkerfisins og gæðum (eða öllu heldur gæðaskorti) egypskra stofnana.

Þess vegna ættu egypsk stjórnvöld alls ekki að reyna að styðja pundið með því að taka aftur upp inngrip á gjaldeyrismörkuðunum. Þess í stað ættu þau að reyna að gera gjaldmiðilinn stöðugan með efnahagslegum og pólitískum umbótum.

Og lærdómurinn fyrir Ísland? Lærið að meta hina fljótandi krónu. Og ef þið viljið að hún sé sterk gætið þess þá að draga úr pólitískri óvissu og koma á kerfisumbótum. Það ætti að vera auðveldara en í Egyptalandi.




Skoðun

Sjá meira


×