Fréttablaðið náði tali af þeim sem nú taka við ráðherraembætti og spurði þau sömu fimm spurninganna. Benedikt Jóhannesson er nýr fjármála- og efnahagsráðherra.
Hvert verður þitt fyrsta verk sem ráðherra?
Það verður að heilsa upp á fólkið sem er hér í ráðuneytinu, kynnast starfsemi þess og fara svo í stofnanirnar.
Hvað gerði forveri þinn í starfi sem þú ert óánægður með?
Ég hef nú sagt það að ég hefði gjarnan viljað að hann hefði skilað þessari skýrslu fyrr, í október. En annars held ég að hann skili býsna góðu búi.
Hvað gerði forveri þinn vel í starfi?
Hann skilar góðu búi. Það hjálpar nýjum ráðherra.
Hvaða verkefni verður fyrirferðarmest í þínu ráðuneyti á kjörtímabilinu?
Það eru auðvitað mjög mörg föst verkefni hér. En ég ætla að nefna breytingar á peningamálastefnunni sem er mjög stórt verkefni. Og svo náttúrlega ný ríkisfjármálaáætlun og áætlun um útgjöld kjörtímabilsins. Það eru mikilvæg verkefni sem við byrjum á strax á morgun.
Sóttist þú eftir þessu embætti?
Ég hefði nú getað hugsað mér ýmis ráðuneyti. En þetta endaði svona að ég lenti hér.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
