Erlent

May fundar næst með Erdogan

Samúel Karl Ólason skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mun funda með Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, í dag eftir að hafa hitt Donald Trump í gær. Líklegt þykir að viðræður þeirra muni að mestu snúast um að auka viðskipti ríkjanna eftir að Bretland yfirgefur Evrópusambandið og aukið samstarf varðandi öryggi og varnir gegn hryðjuverkum.

May er þó undir þrýstingi heiman frá um að ræða við Erdogan um það hve stjórnvöld í Tyrklandi hefur aukið völd hans til muna og staðið fyrir hreinsunum innan embættismannakerfi landsins frá því að tilraun til valdaráns var gerð í sumar.

Samkvæmt AP fréttaveitunni munu þau einnig ræða um átökin í Sýrlandi og viðleitni til að sameina Kýpur.

Guardian segir heimsókn May til Tyrklands vera til marks um breytingar á áherslum Breta í kjölfar Brexit atkvæðagreiðslunnar. Heimsókninni sé einnig ætlað að senda Brussel tóninn og sýna fram á að Bretum standi aðrar dyr opnar en bara ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×