Skoðun

Stöndum með flóttamönnum

Reimar Pétursson skrifar
Ísland hlýtur að taka stöðu með flóttamönnum á móti öflum sem vilja neita þeim um griðastað með gerræðislegum ákvörðunum. Önnur afstaða væri til þess fallin að grafa undan alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði og varpa skugga á afstöðu Íslands til mannréttinda.

Bundin af mannréttindasamningum

Ríki heims eru bundin af alþjóðlegum samningum um mannréttindi. Flóttamenn njóta samkvæmt þeim réttinda án manngreinarálits vegna kynþátta, trúarbragða eða ættlands. Þá er óheimilt að endursenda þá til ríkis þar sem lífi þeirra eða frelsi myndi ógnað. Hvort svo sé þarf að meta sérstaklega fyrir hvern og einn flóttamann og þeim er frjálst að bera slíkt mat undir dómstóla.

Þessir alþjóðlegu samningar takmarka fullveldisrétt Íslands og annarra ríkja til að taka gerræðislegar ákvarðanir um aðgang flóttamanna að landssvæðum þeirra. Á okkar tímum fela þessar takmarkanir á fullveldi í sér ákveðnar áskoranir fyrir ríki heims, en yfirlýstur vilji samningsaðila stendur óbreyttur: að standa með flóttamönnum án tillits til ættlands þeirra.

Grefur undan alþjóðlegu samstarfi

Ríki sem virðir þessi réttindi að vettugi, hvort heldur í stóru eða smáu, grefur undan alþjóðlegu samstarfi og varpar skugga á afstöðu sína til mannréttinda. Vilji kjósenda í viðkomandi ríki skiptir hér engu, því alþjóðlegu sáttmálarnir endurspegla réttindi sem allir í heiminum vilja njóta og samhug sem flestir vilja sýna flóttamönnum á vergangi.

Leitt er að sjá menn hér á landi, sem vilja virða að vettugi mannréttindi flóttamanna, skýla sér bak við orðræðu um að málefni flóttamanna verði að ræða af raunsæi. Miðað við stöðu þjóðaréttar getur slík umræða aldrei talist raunsæ. Hún er einfaldlega lýðskrum sem beinist að þeim sem minnst mega sín og á lítið, ef nokkuð, skylt við málefnalega umræðu um stöðu innflytjenda sem ekki teljast flóttamenn.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×