Enski boltinn

Johnson loksins kominn á toppinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dustin Johnson með bikarinn eftir sigurinn á Genesis Open um helgina.
Dustin Johnson með bikarinn eftir sigurinn á Genesis Open um helgina. Vísir/Getty
Dustin Johnson bar sigur úr býtum á Genesis Open mótinu á PGA-mótaröðinni um helgina með fimm högga forystu á næsta mann. Með sigrinum tryggði hann sér efsta sæti heimslistans í golfi í fyrsta sinn á ferlinum.

Johnson er 20. kylfingurinn sem kemst á topp heimslistans síðan hann var fyrst settur á laggirnar árið 1986.

Sigur Johnson um helgina var afar sannfærandi. Hann lék 49 holur í röð án þess að fá skolla en hann lék á 64 höggum á þriðja hring, sjö undir pari vallarins, og leit aldrei um öxl.

Ferill Johnson hefur verið skrautlegur en það hefur aldrei verið efast um að þar fer mikill hæfileikamaður. Hann hefur unnið mót á PGA-mótaröðinni hvert ár á sínum ferli nema árið 2014, er hann tók sér hálfs árs hlé eftir að hafa fallið tvívegis á lyfjaprófi.

Fullyrt hefur verið að hann hafi átt við eiturlyfjafíkn að stríða. Sjálfur hefur hann neitað því en viðurkennt að hafa ekki haft stjórn á drykkju sinni.

Þetta var þrettándi sigur Johnson á tíu ára ferli á PGA-mótaröðinni. Hann tekur við efsta sæti heimslistans af Ástralanum Jason Day sem þurfti að sætta sig að vera í hópi þeirra neðstu sem komust í gegnum niðurskurðinn.

Day hafði verið í 47 vikur í efsta sæti heimslistans en fær tækifæri til að hrifsa það aftur til sín þegar þeir mætast á nýjan leik í Mexíkó eftir tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×