

Hann er kominn aftur
Sagan sem Timur Vermes skrifaði loks sjálfur árið 2012, fjörutíu og fimm ára gamall – og sló í gegn – fjallar um það þegar Adolf Hitler vaknar einn góðan veðurdag á bekk í almenningsgarði á okkar dögum eftir að hafa sofið frá árinu 1945. Er ist wieder da heitir sagan og var gefin út fyrir nokkrum árum í ágætri íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar undir nafninu Aftur á kreik.
Og fólkið hló
Það er einhver óbærilegur léttleiki í þessari sögu. Hún er óþægilega kósí. Líflega skrifuð, víða fyndin og full af spaugilegum aðstæðum. Skemmtileg – sem er einmitt alls ekki skemmtilegt.
Hitler er sem sagt aftur kominn á stjá í þessari bók. Hann er auðvitað fyrst og fremst hlægilegur. Hann fer um fokvondur og er sjálfum sér líkur; raunar svo líkur að enginn á orð yfir því hversu líkur hann sé Hitler.
Hann er óbærilega heimskur, fordómafullur, fáfengilegur og fullur af meinlokum og illsku. Hann er sí-gargandi samhengislaust og rakalaust þvaður gegn Gyðingum og öðrum tilbúnum óvinum, ekki heil brú í neinu sem hann segir; málflutningurinn svo fáránlegur að ekki er viðlit að eiga orðastað við manninn.
Allir sem á vegi hans verða skella sér á lær yfir því hversu gott atriði hann sé; hversu vel hann „nái honum“. Og svo fer að Hitler verður á vegi fólks sem starfar í sjónvarpinu og sér strax í honum möguleika á því að gera kringum þessa fígúru nýstárlegan og sniðugan „raunveruleikaþátt“. Í sjónvarpið kemst hann inn með sitt raus og áfram heldur fólk að skella sér á lær yfir honum; segir hvert við annað: „Ja það er gállinn á honum núna“ … „hann er laglegur í dag“ … en er um leið eins og dáleitt, getur ekki slitið sig undan málflutningi hans, lætur heillast af ósvífni hans og yfirgengilegum skítnum sem hann eys yfir saklaust fólk. Auðvitað ekki sammála því sem hann segir, finnst hann alltof öfgafullur, alls ekki tilbúið að ganga eins langt og hann segist vilja ganga en samt er eins og málflutningur hans finni sér hljómgrunn einhvers staðar í ólíklegustu hugskotum, þrátt fyrir allt.
Það er eins og fólk verði háð því að heyra yfirgengilegan málflutning sem gengur fram af því – þetta verður eins og nokkurs konar fíkn; það þarf alltaf eitthvað nýtt og nýtt til að skella sér á lær yfir. Hatursrausið í Hitler verður smám saman að skemmtiefni, sem enginn upplifir sem stjórnmála-umræðu, heldur skopfærslu, „eitthvað í sjónvarpinu“ – hvert annað grín. Og smám saman fer fólk að venjast hugmyndum hans um Gyðinga og aðra tilfallandi óvini, hættir að upplifa þessar hugmyndir sem hættulegar og rangar, gott ef fara ekki að heyrast raddir um „góða fólkið“ og að „við verðum að taka umræðuna“ og „þöggunartilburði“.
Vænsta fólk …
Smám saman fjölgar þeim sem finnst það gott flipp að fylgja honum að málum og þáttur Hitlers slær út alla aðra þætti í vinsældum. Sjónvarpið gerir á ný úr honum stórstjörnu. Hann kemst í tísku; fólk tekur hann ekki alvarlega – en heldur ekki ógnina sem stafar frá málflutningi hans, lætur hann dilla sér.
Það bíta allt í einu ekki á honum venjulegar leiðir til að þagga niður í lýðskrumurum og hatursframleiðendum. Fólk hlustar ekki lengur. Það yppir öxlum yfir því að þjóðernissósíalismi Hitlers sé skaðleg stefna – hefur heyrt það þúsund sinnum áður, en man ekki alveg hvað var svona hryllilegt við hann. Og hver er líka kominn til með að segja til um siðferðismörk, rétt og rangt, á póstmódernískum tímum, þegar öll hugmyndakerfi eru hrunin og eina boðorðið er að ota sínum tota sem lengst og best.
Og án þess að fólk ætli sér það, eða geri sér fyllilega grein fyrir því – vænsta fólk sem ekki myndi gera neitt á hluta nokkurrar manneskju annarrar – þá fer það að lokum svo að það stígur yfir mörkin og er allt í einu statt á svæðinu handan góðs og ills, í múgsálinni sem maður rennur inn í og þar sem maður afsalar sér sjálfstæðri hugsun og siðferðishömlur hverfa. Og þetta góða fólk er allt skyndilega farið að hylla lítilmótlegan mann með asnalega hárgreiðslu og ömurlegar skoðanir vaktar af minnimáttarkennd, vanþekkingu, hatri og lygum.
Kunnuglegt? Af hverju skyldi ég nú hafa farið að hugsa um þessa sögu núna? Sagan Aftur á kreik er nefnilega ekki saga um Adolf Hitler – heldur um okkur.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Skoðun

Handtöskur og fasistar
Ásgeir K. Ólafsson skrifar

Dánaraðstoð á Bretlandseyjum í náinni framtíð
Bjarni Jónsson skrifar

„Vókið“ er dulbúin frestunarárátta:
Gabríel Dagur Valgeirsson skrifar

Vókismi gagnrýndur frá vinstri
Andri Sigurðsson skrifar

Diplómanám er ekki nóg – tími til kominn að endurskoða aðgengi fatlaðs fólks að háskólanámi
Sigurður Hólmar Jóhannesson skrifar

Styrk stjórn gefur góðan árangur
Ásthildur Sturludóttir skrifar

„Bara ef það hentar mér“
Hákon Gunnarsson skrifar

Hvar værum við án þeirra? – Um mikilvægi Pólverja á Íslandi
Svandís Edda Halldórsdóttir skrifar

Fagleg forysta skiptir öllu - Af hverju eru ekki fleiri stjórnendur og leiðtogar að kveikja á perunni?
Sigurður Ragnarsson skrifar

Borgin græna og ábyrgðin gráa
Daði Freyr Ólafsson skrifar

Stalín á ekki roð í algrímið
Halldóra Mogensen skrifar

Sorrý, Andrés
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Er órökréttur skattafsláttur fyrir tekjuháa besta leiðin til að styðja barnafólk?
Ragna Sigurðardóttir skrifar

Gamalt vín á nýjum belgjum
Guðbjörg Sveinsdóttir skrifar

Mikilvægi skólasafna – meira en bókageymsla
Jónella Sigurjónsdóttir,Þórný Hlynsdóttir,Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar skrifar

Aukinn stuðningur við ESB og NATO
Pawel Bartoszek skrifar

Það á að hafa afleiðingar að níðast á varnarlausu fólki
Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar

Börnin borga fyrir hagræðinguna í Kópavogi
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir skrifar

Hvernig er veðrið þarna uppi?
Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Að leita er að læra
Ragnar Sigurðsson skrifar

Vöxtur hugverkaiðnaðar á biðstofunni
Erla Tinna Stefánsdóttir,Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir skrifar

Viska: Sterkara stéttarfélag framtíðarinnar
Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir skrifar

Þetta er ekki raunverulegt réttlæti
Snorri Másson skrifar

Ábyrgð auglýsenda á íslenskri fjölmiðlun
Daníel Rúnarsson skrifar

Vofa illsku, vofa grimmdar
Haukur Már Haraldsson skrifar

Á að láta trúð ráða ferðinni?
Ingólfur Steinsson skrifar

Kópavogur forgangsraðar í þágu kennara, barna og skólastarfs
Ásdís Kristjánsdóttir skrifar

Ofþétting byggðar í Breiðholti?
Þorvaldur Daníelsson skrifar

Trans fólk er ekki að biðja um sérmeðferð
Eydís Ásbjörnsdóttir skrifar

Hvenær ber fullorðið fólk ábyrð?
Guðrún Ósk Þórudóttir skrifar