Sýrlenski stjórnarherinn hefur með aðstoð rússneska flughersins aftur náð borginni Palmyra úr höndum liðsmanna hryðjuverkasamtakanna ISIS.
Stjórnarhermenn og bandamenn þeirra héldu inn í borgina í gær og í dag hafði þeim tekist að ná borginni allri á sitt vald. Frá þessu greindu talsmenn rússneska utanríkisráðuneytisins og sýrlenska stjórnarhersins í dag.
Liðsmenn ISIS sem höfðust við í Palmyra hafa nú flúið inn á svæði austur af borginni og vinna sýrlenskir stjórnarhermenn nú að því að hreinsa borgina af jarðsprengjum.
ISIS hefur tvívegis náð Palmyra á sitt vald, síðast í desember í fyrra. Þar hafa hryðjuverkasamtökin framkvæmt fjöldaaftökur í rústum hringleikahúss fornu borgarinnar og unnið þar gríðarmiklar skemmdir en borgin er á heimsminjaskrá UNESCO.
ISIS hafa misst stór landsvæði á síðustu mánuðum og er sótt að þeim út öllum áttum. Ljóst er að ekki sé þess langt að bíða að ráðist verði gegn Raqqa, höfuðvígis ISIS í Sýrlandi.
Hafa aftur náð Palmyra úr höndum ISIS
atli ísleifsson skrifar