Hámark flugdellunnar á Íslandi gæti verið í Múlakoti í Fljótshlíð en þar byggja menn sumarbústaði við flugbraut og leggja svo akstursbraut fyrir flugvélina beint að eldhúsglugganum. Þetta mátti sjá í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum „Um land allt".
Flugsagan í Múlakoti hófst raunar fyrir sextíu árum þegar bóndasonurinn Árni Guðmundsson lærði flug en nú er þetta orðið samfélag flugáhugamanna, - manna eins og Einars Dagbjartssonar flugstjóra, sem sýndi okkur hvernig hann getur ekið flugvélinni eftir lendingu beint að bústaðnum og lagt henni fyrir utan eldhúsgluggann.
Um tuttugu bústaðir eru risnir á svæðinu við flugvöllinn en búið að skipuleggja áttatíu frístundalóðir fyrir flugáhugamenn. Og Einar vill fá aðra braut neðar á Markarfljótsaurum, - segir vanta stutta þverbraut þar sem norðanáttin geti verið erfið á svæðinu.
Tvíþekja frá stríðsárunum, af gerðinni Boeing Stearman, er sú flugvél í Múlakoti sem jafnan vekur mesta athygli en hún er elsta flughæfa vél á landinu, í eigu Erlings Jóhannessonar flugvirkja og flugstjóra, sem varði 20 árum í að gera hana upp.
Eiginkona Erlings er Alfhild Nielsen en þau eiga einnig þrjá syni í fluginu og sonarson. Hún var spurð hvort flugið væri ekki peningasuga, - og hvort hver sem er gæti stundað þetta áhugamál:
„Jú, jú. Þetta er alveg fyrir hvern sem er, þannig lagað. Það fer bara eftir því í hvað þú notar peningana þína,” svarar Alfhild.
Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins.

