Körfubolti

Boston og Washington komin áfram en Clippers knúði fram oddaleik | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
John Wall var svona ánægður eftir að Washington vann Atlanta.
John Wall var svona ánægður eftir að Washington vann Atlanta. vísir/afp
Boston Celtics og Washington Wizards tryggðu sér í nótt sæti í undanúrslitum Austurdeildarinnar í NBA. Það þarf hins vegar oddaleik til að knýja fram úrslit í rimmu Utah Jazz og Los Angeles Clippers.

Boston vann öruggan sigur á Chicago Bulls, 83-105, í sjötta leik liðanna. Chicago vann fyrstu tvo leikina í einvíginu en Boston kom til baka, vann fjóra leiki í röð og tryggði sér sæti í undanúrslitunum þar sem liðið mætir Washington.

Avery Bradley skoraði 23 stig fyrir Boston og Gerald Green sextán. Jimmy Butler skoraði 23 stig fyrir Chicago en Dwayne Wade fann sig engan veginn og skoraði einungis tvö stig.

John Wall fór hamförum þegar Washington bar sigurorð af Atlanta Hawks, 99-115. Washington vann einvígið 4-2.

Wall skoraði 42 stig, gaf átta stoðsendingar og stal boltanum fjórum sinnum. Bradley Beal átti einnig góðan leik og skoraði 31 stig. Paul Millsap var atkvæðamestur í liði Atlanta með 31 stig, 10 fráköst, sjö stoðsendingar og fjóra stolna bolta.

Clippers tryggði sér oddaleik gegn Utah með fimm stiga sigri, 93-98, í sjötta leik liðanna.

Chris Paul fór fyrir sínum mönnum í Clippers og skoraði 29 stig og gaf átta stoðsendingar. DeAndre Jordan skoraði 13 stig og tók 18 fráköst. Gordon Hayward skoraði 31 stig fyrir Utah og Gordon Hill 22 stig.

Oddaleikur Clippers og Utah fer fram í Staples Center í Los Angeles annað kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×