„Við lentum í því óhappi að farangursvagn frá öðrum þjónustuaðila í Leifsstöð fauk á vél frá okkur og hún var óflughæf á eftir,“ segir Svana Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, um ástæðu þess að ferð flugfélagsins til Miami í Bandaríkjunum á mánudag, og heim daginn eftir féllu niður.
Að sögn Svönu er ein af þremur Airbus A330 breiðþotum WOW air mikið skemmd eftir atvikið sem varð í óveðrinu á annan í páskum. Farþegar sem áttu bókað heim á þriðjudag höfðu um miðjan dag í gær ekki enn getað innritað sig í flug en fyrirtækið þurfti að leigja aðra breiðþotu sem á að flytja flesta þeirra hingað til lands í dag. Vélin fór út seinnipartinn í gær með þá farþega sem áttu að fara til bandarísku borgarinnar á mánudag og höfðu ekki afbókað. Óánægður viðskiptavinur WOW, sem hafði samband við Fréttablaðið, hafði áhyggjur af því að hann kæmist ekki heim með vélinni í dag og kvartaði undan upplýsingagjöf flugfélagsins.
„Við óskuðum eftir sjálfboðaliðum sem vildu fresta heimför og það gengur mjög vel. Allir þeir farþegar sem áttu að fara heim á þriðjudaginn fara heim með vélinni á morgun [í dag]. En það eru auðvitað margir sem eru til í að vera lengur í sólinni úti í Miami og verða þá lengur,“ segir Svana.
Aðspurð á hversu marga farþega seinkanirnar höfðu áhrif segist Svana ekki hafa upplýsingar um það. Hún segir að ekki sé búið að leggja endanlegt mat á tjónið á breiðþotunni sem tekur 350 í sæti og bættist í flota WOW air í fyrra.
