Fótbolti

Chicharito skoraði sögulegt mark í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Hernandez fagnar markinu sögulega.
Javier Hernandez fagnar markinu sögulega. Vísir/AP
Javier Hernandez, betur þekktur sem Chicharito komst í sögubækurnar í heimalandi sínu í nótt. Þessi fyrrum leikmaður Manchester United og Real Madrid er orðinn sá markahæsti frá upphafi.

Chicharito skoraði þá sitt 47. mark fyrir landslið Mexíkó og sló með því markamet Jared Borgetti.

Markið hans kom í vináttulandsleik á móti Króatíu í Los Angeles en Króatar eru að undirbúa sig fyrir leik á móti Íslandi á Laugardalsvellinum 11. júní næstkomandi.

Hernandez skoraði markið sitt á 87. mínútu leiksins þegar hann skallaði aukaspyrnu frá Andres Guardado. Hann var ekki að skora í fyrsta sinn á móti Króatíu því kappinn skoraði einnig á móti Króötum á HM í Brasilíu 2014.







Chicharito var fljótasti landsliðsmaður Mexíkó til að skora 10., 20., 30. og 40. markið fyrir landsliðið en hann jafnaði met Borgetti í sínum 89. landsleik. Leikurinn í gær var síðan landsleikur númer 91 hjá Javier Hernandez.

Chicharito hefur skorað á móti 29 þjóðum en mest fjögur mörk á móti Hondúras og El Salvador.

Chicharito ætti að geta fengið nóg að tækifærum til að bæta þetta markamet því það er búist við því að Mexíkó spili allt að sautján landsleiki í sumar. Liðið á eftir að spila leiki í undankeppni HM, tekur þátt í Álfukeppni FIFA, spilar í Gullbikar CONCACAF og svo einhverja vináttulandsleiki að auki.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×