Geir Sveinsson gerir eina breytingu á íslenska landsliðinu sem mætir Úkraínu í undankeppni EM 2018 í kvöld.
Valsmaðurinn Ýmir Örn Gíslason kemur inn í 16 manna hóp í staðinn fyrir Gunnar Stein Jónsson.
Ýmir, sem er 19 ára, leikur þar með sinn fyrsta keppnisleik fyrir íslenska A-landsliðið. Hann lék sínu fyrstu landsleiki á æfingamóti í Noregi í síðustu viku.
Ýmir er lykilmaður hjá Val og átti stóran þátt í því að liðið varð Íslands- og bikarmeistari í vetur.
Ísland verður að vinna leikinn í kvöld til að komast á EM í Króatíu á næsta ári.
Vinni Ísland leikinn fer það áfram sem það lið sem er með bestan árangur í 3. sæti riðlanna sjö í undankeppninni.
Möguleikinn á að ná 2. sætinu í riðlinum er líka enn til staðar. Til að það gangi eftir þarf Ísland að sjálfsögðu að vinna og treysta á að Tékkland vinni Makedóníu í Skopje á sama tíma.
Leikur Íslands og Úkraínu hefst klukkan 18:45 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.
