Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, leggur til að Miðflokkurinn og Þjóðarbandalagið myndi ríkisstjórn með þeim þingmönnum sem klufu sig frá þingflokki Sannra Finna og mynduðu þingflokkinn Nýjan valkost. Þannig myndu allir ráðherrar halda sætum sínum í ríkisstjórninni þó að þingmeirihlutinn sé nokkuð knappari.
Sipilä ræddi við fjölmiðla fyrir stundu þar sem hann lagði þetta til. Timo Soini, utanríkisráðherra og fyrrverandi formaður Sannra Finna, og allir aðrir ráðherrar úr röðum Sannra Finna, tilkynntu í morgun að þeir hafið klofið sig úr þingflokknum. Alls eru 22 þingmenn í Nýjum valkosti, en eftir situr fimmtán manna þingflokkur Sannra Finna.
Sipilä sagðist vona að hægt yrði að mynda nýja ríkisstjórn innan sólarhrings. Þingmenn Nýs valkosts sögðust reiðubúnir að starfa í samræmi við áður gerðan stjórnarsáttmála.
Sipilä hefur rætt við lögfróða menn um framkvæmdina í dag og mun nú ráðfæra sig við þingflokk Miðflokksins og fjármálaráðherrann Petteri Orpo, formann Þjóðarbandalagsins. Þá mun Sipilä einnig ræða við þingflokksformenn allra flokka í kvöld. Eftir það verður boðað til nýs blaðamannafundar.
Jussi Halla-aho tók við formennsku í Sönnum Finnum af Soini á landsfundi um helgina, en Halla-aho þykir mun harðari í andstöðu sinni í garð innflytjenda en forverinn og hefur áður hlotið dóm fyrir hatursummæli.
Eftir kjörið sögðust Sipilä og Orpo ekki geta starfað með Sönnum Finnum.
Sipilä vill starfa með klofningshópnum úr Sönnum Finnum

Tengdar fréttir

Sipilä: Engar forsendur fyrir áframhaldandi samstarf við Sanna Finna
Flest bendir til að ríkisstjórn Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, sé að falla.

Meirihluti þingmanna Sannra Finna segir skilið við flokkinn
Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands og fyrrverandi formaður Sannra Finna, sem og aðrir ráðherrar úr röðum Sannra Finna vilja starfa áfram í finnsku ríkisstjórninni og hafa myndað nýjan þingflokk.