Körfubolti

Derrick Rose spilar með Cleveland Cavaliers í NBA í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derrick Rose í leik á móti Cleveland og Lebron James.
Derrick Rose í leik á móti Cleveland og Lebron James. Vísir/Getty
Bandaríski leikstjórnandinn Derrick Rose hefur náð samkomulagi um að spila með Cleveland Cavaliers 2017-18 tímabilið.

Rose gerði eins árs samning og fær fyrir hann 2,1 milljón dollara. Hinn meiðslahrjáði bakvörður fær því tækifæri til að sína að hann er ekki búinn að vera og um leið að hjálpa Cleveland að berjast áfram meðal þeirra bestu í deildinni.

Cleveland gekk fljótt í málið eftir að fréttist af því að Kyrie Irving vildi losna frá félaginu. LeBron James fær nú öflugan leikstjórnanda til sín sem ætti að minnka eitthvað höggið við það að missa Kyrie.

Rose var líka í viðræðum við Los Angeles Lakers, Milwaukee Bucks og Los Angeles Clippers. Hann valdi hinsvegar Cleveland og LeBron bauð hann velkominn á Twitter.

Golden State Warriors fékk til sín fyrrum besta leikmann NBA-deildarinnar í fyrra þegar Kevin Durant kom til liðsins. Cleveland fer svipaða leið en á meðan Durant er enn í hópi bestu manna þá hefur ferill Rose hinsvegar verið á hraðri niðurleið.

Derrick Rose er líka fyrrum besti leikmaður NBA-deildarinnar en hann átti frábært tímabil með Chicago Bulls 2010-11. Rose meiddist hinsvegar illa í úrslitakeppninni það tímabil og hefur síðan þá verið meira eða minna meiddur.

Derrick Rose verður 29 ára gamall í byrjun október en hann var með 18,0 stig og 4,4 stoðsendingar að meðaltali með New York Knicks á síðasta tímabili. Þegar hann var kosinn bestur tímabilið 2010-11 þá voru meðaltöl hans aftur á móti 25,0 stig og 7,7 stoðsendingar í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×