Erlent

Dagar „kjaftæðisins“ í Hvíta húsinu sagðir liðnir

Kjartan Kjartansson skrifar
John Kelly, nýr starfsmannastjóri Hvíta hússins, virðist ætla að koma heraga á ríkisstjórn sem hefur einkennst af glundroða.
John Kelly, nýr starfsmannastjóri Hvíta hússins, virðist ætla að koma heraga á ríkisstjórn sem hefur einkennst af glundroða. Vísir/AFP
Eftir nær látlaust umrót og uppstokkun í starfsliðinu undanfarna daga og vikur segja heimildamenn CNN innan Hvíta hússins að dagar þess að „kjaftæði sé umborið“ séu liðnir.

Donald Trump forseti lét Anthony Scaramucci, nýráðinn samskiptastjóra Hvíta hússins, taka poka sinn í dag. Scaramucci hafði aðeins tekið við starfinu fyrir tíu dögum og hefur engin samskiptastjóri gegnt starfinu skemur.

Sjá einnig:Trump rekur samskiptastjóra Hvíta hússins eftir aðeins tíu daga starf

„Dagar þess að kjaftæði sé umborið í þessu Hvíta húsi eru taldir,“ hefur CNN-fréttastöðin eftir ónafngreindum heimildamanni sem stendur Hvíta húsinu nærri.

Orðbragðið ekki sæmandi manni í stöðu Scaramucci

Brottrekstur Scaramucci var sagður að undirlagi John Kelly, nýs starfsmannastjóra Hvíta hússins, sem tók við starfinu í dag. Honum var sagt ofboðið yfir fúkyrðaflaumi Scaramucci um samstarfsmenn sína í Hvíta húsinu í viðtali við New Yorker í síðustu viku.

Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í kvöld sagði Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi þess, að Trump hafi talið orðbragðið sem Scaramucci hafði um þá Stephen Bannon, aðalráðgjafa forsetans, og Reince Priebus, fyrrverandi starfsmannastjórans, ekki viðeigandi fyrir mann í hans stöðu.

Anthony Scaramucci hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið.Vísir/AFP
CNN hefur einnig eftir tveimur heimildamönnum að Trump hafi orðið Scaramucci afhuga vegna allrar fjölmiðlaathyglinnar sem hann fékk þegar hann tók við starfi samskiptastjóra.

Í fyrstu hafi forsetinn stutt Scaramucci eftir reiðilestur hans við New Yorker en í kjölfarið hafi honum mislíkað að samskiptastjórinn væri orðinn aðalfréttin frekar en hann sjálfur.

Hneyksli, brottrekstur og skilnaður

Huckabee Sanders sagði ennfremur á blaðamannafundinum að Scaramucci hefði ekkert hlutverk í ríkisstjórn Trump lengur. Ítrekaði hún að Kelly hefði nú fullt vald yfir málum í Hvíta húsinu. Þegar hún var spurð hvort að Ivanka Trump, dóttir forsetans, eiginmaður hennar Jared Kushner, og Stephen Bannon, aðalráðgjafi, myndu heyra undir Kelly endurtók hún að allir í Hvíta húsinu væru nú undir Kelly.

Óhætt er að segja að Scaramucci hafi átt erfiða viku. Auk þess að hafa verið fordæmdur við klúryrt viðtalið við New Yorker og að hafa misst vinnuna í kjölfarið óskaði eiginkona hans eftir skilnaði í síðustu viku.

Hún var gengin níu mánuði á leið og ól Scaramucci annað barn þeirra á mánudag. Scaramucci var ekki viðstaddur fæðinguna og var staddur með Trump í forsetaflugvélinni á meðan, að sögn The Guardian.

Í myndbandi Politico hér fyrir neðan má heyra hvernig sjónvarpsfréttamenn í Bandaríkjunum brugðust við tíðindunum um skyndilegt brotthvarf Scaramucci eftir aðeins rúma viku í starfi.


Tengdar fréttir

Innanhússerjur í Hvíta húsinu fyrir opnum tjöldum

Samskiptastjóri Hvíta hússins gefur sterklega í skyn að starfsmannastjóri þess hafi lekið skaðlegum upplýsingum í fjölmiðla. Hann segir að þeir sem hefðu lekið eins viðkvæmum upplýsingum og nú sé gert hefðu verið hengdir fyrr á öldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×