Fótbolti

Real Madrid vann Ofurbikar Evrópu í þriðja sinn á síðustu fjórum árum | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Real Madrid bar sigurorð af Manchester United, 2-1, í leiknum um Ofurbikar Evrópu sem fór fram í Skopje í Makedóníu.

Þetta er annað árið í röð og í þriðja sinn á síðustu fjórum árum sem Real Madrid vinnur þennan árlega leik milli sigurvegara Meistaradeildar Evrópu og Evrópudeildarinnar.

Real Madrid var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og var nálægt því að komast yfir á 16. mínútu þegar Casemiro skallaði í slánna.

Átta mínútum síðar urðu Brasilíumanninum ekki á nein mistök þegar hann setti boltann framhjá David de Gea í marki United eftir sendingu frá Dani Carvajal.

Staðan í hálfleik var 1-0 en á 52. mínútu jók Isco muninn í tvö mörk eftir sendingu frá Gareth Bale.

Þá fyrst hresstust leikmenn United og Romelu Lukaku fékk skömmu síðar dauðafæri til að skora en skaut yfir.

Bale skaut í slánna á 61. mínútu en aðeins mínútu minnkaði Lukaku muninn í 2-1 þegar hann fylgdi eftir skoti Nemanja Matic sem Keylor Navas varði út í teiginn.

Þegar níu mínútur voru til leiksloka slapp Marcus Rashford einn inn fyrir vörn Real Madrid en lét Navas verja frá sér.

Fleiri urðu mörkin ekki og Real Madrid fagnaði 2-1 sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×