Golf

Ólafía fékk 864 þúsund krónur í Portland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Ólafía Þórunn lék á fimm höggum undir pari á Cambia Portland Classic-mótinu.
Ólafía Þórunn lék á fimm höggum undir pari á Cambia Portland Classic-mótinu. vísir/getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék lokahringinn á Cambia Portland Classic-mótinu á pari. Mótið, sem er hluti af LPGA-mótaröðinni í golfi, fór fram á Columbia Edgewater golfvallarins í Portland.

Fyrir lokahringinn var Ólafía á fimm höggum undir pari og í 32. sæti. Hún hefur því eflaust gælt við að komast í hóp 30 efstu kylfinga á lokadegi mótsins. Ólafía hafnaði í 39.-41. sæti og fékk fyrir það 6.950 dollara í sinn hlut, jafnvirði 864 þúsund króna.

Ólafía hafði fallið um nokkur sæti á peningalistanum eftir síðustu tvö mót en er nú í 106. sæti listans með 72.090 dollara í heildartekjur. Hún er um fimm þúsund dollurum frá kylfingnum í 100. sæti en 100 kylfingar sem verða efstir á peningalistanum í lok tímabilsins fá fullan þátttökurétt á LPGA-mótaröðinni á næsta ári.

Ólafía fór fyrstu fjórar holurnar á lokahringnum í gær á pari en fékk svo skolla á 5. holu. Hún rétti sig af með tveimur fuglum í röð og fékk svo 10 pör á síðustu 11 holunum. Alls fékk Ólafía 14 pör á hringnum í gær, tvo fugla og tvo skolla. Afar stöðug spilamennska hjá henni.

Ólafía hefur nú keppt á 18 mótum á LPGA-mótaröðinni í ár en hún er sem kunnugt er eini Íslendingurinn sem hefur unnið sér þátttökurétt á þessari sterkustu mótaröð heims.

Ólafía hefur komist í gegnum niðurskurðinn á átta af 18 mótum sem hún hefur keppt á í ár. Besti árangur hennar er 13. sæti á Opna skoska meistaramótinu sem fór fram í lok júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×