Fótbolti

Aron Einar: VIð vinnum saman sem þjóð og við töpum saman sem þjóð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Aron kallar eftir aukaspyrnu í leiknum í dag.
Aron kallar eftir aukaspyrnu í leiknum í dag. Vísir/Ernir
„Það er erfitt að taka þessu en við vinnum saman sem þjóð og við töpum saman sem þjóð, nú er það undir okkur komið að svara fyrir þetta á þriðjudaginn kemur,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska liðsins, svekktur að leikslokum eftir 0-1 tap Íslands gegn Finnlandi í dag í samtali við Hauk Harðarson hjá RÚV eftir leik.

„Fyrri hálfleikurinn var ekki nægilega góður hreint út sagt, þeir voru ákveðnari og höfðu betur í baráttunni sem skilaði þeim oft á tíðum seinni boltanum. Við fengum færi hérna undir lokin en það er því miður ekki hægt að taka margt jákvætt úr þessum leik.“

Aron sagði Rúrik hafa verið niðurlútan í búningsklefanum en herbergisfélagi hans fékk tvö gul spjöld með aðeins mínútu millibili.

„Þetta var klaufalegt, hann veit það manna best og hann var ansi þungur inn í klefa áðan. Þetta var svekkjandi að sjá en tapið er ekki honum að kenna. Við hefðum átt að koma ákveðnari inn í þennan leik en við lærum af því.“

Aron Einar virtist strax vera kominn við hugann við næsta leik.

„Það er leikur á þriðjudaginn og menn verða svekktir í kvöld en við erum í þessu saman sem lið og þjóð og það er mitt að gíra menn aftur í gang. Þetta verður erfitt í kvöld en við verðum að halda dampi, verja heimavöllinn og vinna Úkraínu. Við komum inn í þessa törn í leit að sex stigum en við þurfum bara núna að taka þrjú.“






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×