Golf

Sendi Sergio Garcia skilaboð á Twitter 206 daga í röð og það bar árangur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Garcia og Mark Johnson er í bakgrunni.
Sergio Garcia og Mark Johnson er í bakgrunni. Vísir/Getty
Póstmaður frá Peterborough sýndi mikla þrautseigju á Twitter og það skilaði sér á endanum. Hann fékk að upplifa drauminn sinn.

Mark Johnson er mikill golfáhugamaður og einnig mikill aðdáandi spænska kylfingsins Sergio Garcia. Draumastarfið var að fá að vera kylfuberi hjá Masters-meistaranum og honum varð að ósk sinni. Það þurfti hinsvegar stanslaust áreiti á Twitter til. BBC segir frá.

Johnson sendi Sergio Garcia skilaboð á Twitter 206 daga í röð og notaði myllumerkið #Letmecaddieforyou eða #leyfðuméraðverakylfuberinnþinn.

Sergio Garcia svaraði honum loksins í janúar og sagðist vera búinn að finna mót sem hann gæti borið kylfurnar fyrir sig. Mótið sem um ræðir var Masters Pro-Am event sem fer þessa dagana fram á Close House golfvellinum.

„Hann gafst bara ekki upp,“ sagði Sergio Garcia við BBC í léttum tón. „Hann var frábær í dag og við áttum góðan dag saman,“ sagði Garcia.

„Hann byrjaði á því að ná fugli á fyrstu holu og ég skrifa það á mig en síðan missti ég golfpokann,“ sagði Mark Johnson og bætti við:

„Hápunkturinn var bara að hitta hann. Hann er góður strákur og ég sagði bara við hann að fara og vinna mótið,“ sagði þessi póstmaður frá Peterborough.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×