Útgjöld Sjúkratrygginga Íslands til sérgreinalækna vegna komu sjúklinga hafa frá árinu 2014 aukist um einn og hálfan milljarð. Rúmlega tólf milljörðum var varið úr ríkissjóði til sérgreinalækna.

Á sama tíma og aukið fjármagn rennur til sérgreinalækna bendir Birgir á að aðhaldskröfur eru hertar hjá Landspítala. „Þessi aukning til sérfræðilækna er mjög óæskileg. Bendir það til þess að við höfum verið að forgangsraða þessari grein heilbrigðismála á kostnað opinberrar þjónustu, það er bara þannig. Skýrsla Ríkisendurskoðunar bendir einmitt á það líka að fjármagn hefur stóraukist í þennan málaflokk á kostnað opinberu þjónustunnar.“
Að mati Birgis er verið að byggja upp heilbrigðisþjónustu sem er ekki skilvirk fyrir þá þjónustu sem sjúklingar þurfa á að halda og er óheppileg.
Sérgreinalæknar ættu ekki að vinna í hlutastarfi í opinberu þjónustunni og vinna á sama tíma sjálfstætt á eigin stofu.
„Ég vil meina að sérfræðingar ættu í auknum mæli að veita þjónustuna á göngudeildum sjúkrahúsa þar sem teymisvinna fleiri sérfræðinga á sér stað. Þeir eru betur í stakk búnir til að mæta þeim kröfum sem sjúklingar vilja í teymisvinnu með öðrum. Einn sérfræðingur er vanmáttugur þegar þarf að ræða flókin vandamál.“