Formaður bandarískrar þingnefndar sem rannsakar meint samráð forsetaframboðs Donalds Trump við rússnesk stjórnvöld segir það enn „opna spurningu“. Hann gerir ráð fyrir að Rússar haldi áfram að reyna að hafa áhrif á kosningar í Bandaríkjunum.
Leiðtogar leyniþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings sögðu blaðamönnum í dag að þeir styðji að miklu leyti niðurstöðu leyniþjónustunnar um að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna í fyrra, að því er segir í frétt Washington Post.
„Spurning um samráð er enn opin. Við höfum ekki komist að neinni niðurstöðu um samráð,“ sagði Richard Burr, formaður nefndarinnar og þingmaður Repúblikanaflokksins.
Vonast til að ljúka rannsókn fyrir kosningabaráttu á næsta ári
Trump hefur kallað ásakanir um að framboð hans hafi átt í samráði við útsendara Rússa gabb og mestu nornaveiðar í sögu Bandaríkjanna. Rússnesk stjórnvöld hafa sömuleiðis þvertekið fyrir að hafa átt í samráði við framboðið.
Leyniþjónustunefndin hefur tekið fleiri en hundrað viðtöl sem hafa staðið í yfir meira en 250 klukkustundir í tengslum við rannsóknina. Til stendur að ræða við tuttugu og fimm vitni til viðbótar í þessum mánuði, að því er kemur fram í frétt Reuters. Auk hennar rannsakar Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, meint samráð.
Burr lagði áherslu á að nefndin ætti enn mikið starf eftir óunnið. Markmiðið sé að ljúka henni áður en forval flokkanna fyrir þingkosningarnar næsta haust byrjar.
Hann sagði heldur ekki hægt að álykta annað en að Rússar séu enn að reyna að hafa áhrif og skapa glundroða í kosningum í Bandaríkjunum.
