Körfubolti

Danielle með þrefalda tvennu í stórsigri Stjörnunnar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Danielle Victoria Rodriguez átti enn einn stórleikinn með þrefalda tvennu.
Danielle Victoria Rodriguez átti enn einn stórleikinn með þrefalda tvennu. Vísir/Andri Marinó
Danielle Victoria Rodriguez fór gjörsamlega á kostum í sannfærandi 72-55 sigri Stjörnunnar gegn Snæfelli í 5. umferð Dominos-deildar kvenna en hún var með þrefalda tvennu ásamt því að stela fimm boltum í leiknum.

Garðbæingar komu inn í leikinn á góðu skriði og tóku yfir leikinn strax í fyrsta leikhluta í Stykkishólmi. Breyttu þær stöðunni úr 2-6 í 30-10 á seinustu sjö mínútum leikhlutans, ótrúlegur 28-4 kafli.

Sami frábæri varnarleikur var til staðar í öðrum leikhluta, þær héldu heimakonum í níu stigum og bættu um leið við forskot sitt. Tóku þær 29 stiga forskot inn í hálfleikinn, staðan 48-19, Stjörnunni í vil.

Eitthvað virðist Ingi Þór Steinþórsson hafa náð að vekja til baráttuhug hjá sínum konum í hálfleik þar sem þær minnkuðu muninn niður í tuttugu stig á ný fyrir lokaleikhlutann.

Bilið var hinsvegar allt of mikið og var fjórði sigur Stjörnunnar í röð aldrei í hættu í fjórða leikhluta þótt að heimakonum hafi tekist aðeins að laga stöðuna á lokamínútunum.

Daniella var stigahæst hjá gestunum með 31 stig ásamt því að taka 14 fráköst, gefa 12 stoðsendingar og stela boltanum fimm sinnum. Samtals 52 framlagspunktar í leiknum.

Hjá Snæfelli var Kristen Denise McCarthy stigahæst með sautján stig ásamt því að rífa niður átján fráköst en hún hitti aðeins úr sex af átján skotum sínum í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×