Lífið

Baldwin-bróðir sakar Trump um að hafa reynt við konuna sína

Kjartan Kjartansson skrifar
Billy Baldwin er næstyngstur fjögurra Baldwin-bræðra.
Billy Baldwin er næstyngstur fjögurra Baldwin-bræðra. Vísir/AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti er með „svarta beltið“ þegar kemur að ásökunum um kynferðislegt misferli. Þetta segir leikarinn Billy Baldwin sem fullyrðir jafnframt að Trump hafi reynt við konuna sína og boðið henni í þyrluferð til Atlantic-borgar.



Fréttir um ásakanir um kynferðislega áreitni valdamanna í garð kvenna hafa verið afar áberandi víða um heim undanfarnar vikur. Á meðal þeirra sem hafa verið sakaðir um áreitni er Al Franken, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins í Bandaríkjunum.



Donald Trump yngri, sonur Bandaríkjaforseta, vakti athygli á nýjum ásökunum gegn Franken á Twitter. Þrátt fyrir Trump eldri hafi sjálfur verið sakaður um að beita konur kynferðislegu ofbeldi og áreitni átti sonurinn líklega ekki von á viðbrögðunum sem hann fékk frá einum Baldwin-bræðranna.



„Pabbi þinn er með fimmtu gráðu svarta beltisins þegar kemur að ásökunum um kynferðislegt misferli,” tísti Billy Baldwin á móti. Hann er bróðir Alec Baldwin sem hefur meðal annars leikið Trump eldri í gamanþættinum Saturday Night Live við góðan orðstír.

Tíst Billy Baldwin til Donalds Trump yngri.Skjáskot

Baldwin lét þetta þó ekki nægja heldur rifjaði hann upp sögu af Trump forseta.



„Ég hélt einu sinni samkvæmi á Plaza-hótelinu…faðir þinn mætti óboðinn og reyndi við konuna mína…bauð henni í þyrluna sína til Atlantic-borgar,“ tístir Baldwin.



Tilburðir Trump virðast þó ekki hafa borið mikinn árangur ef marka má Baldwin.



„Hún vísaði hans feita rassi á dyr,“ tísti leikarinn.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×