
„Mér vitanlega hefur ekki verið sýnt fram á bein tengsl sykurneyslu við sykursýki, eins og hefur mátt skilja af nýlegri umfjöllun um málið, og því ansi hæpið að skattleggja sykur út frá þeirri ástæðu. Þar að auki er nauðsynlegt að það komi fram, að ólíkt því sem margir trúa þá hefur sykurneysla dregist saman um 20 prósent frá aldamótum. Það er því eðlilegt að leitað sé annarra orsaka fyrir offituvandanum sem hefur vaxið á sama tíma,“ segir Finnur Geirsson, forstjóri Nóa Síríus.
„Það er ábyggilegt að einhverjir kunni sér ekki hóf í neyslu á sykurvörum og því mælum við ekki með, nema síður sé. Okkur finnst einfaldlega ósanngjarnt að taka einn fæðuflokk út, án rökstuðnings, og kenna honum einum um það sem miður fer í heilsufarsmálum. Síðan er það önnur umræða hver séu áhrif sykurskatts á neyslu sykraðra vara. Rannsóknarniðurstöður eru mjög misvísandi í þessum efnum, en ég hef tekið eftir því að þeir sem trúa því statt og stöðugt að sykur sé nánast eitur sem beri að forðast eins og heitan eldinn eru gjarnir á að trúa því líka að skatturinn muni hafa tilætluð áhrif,“ segir Finnur.
Ævar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Freyju í Kópavogi, segir sykurskattinn sem lagður var á í mars 2013 og aflagður í lok desember ári síðar hafa haft lítil sem engin áhrif á neysluna.
„Ég skil vel að menn vilji stemma stigu við sykrinum en þetta er ekki rétta leiðin og ekki eins og þetta var gert síðast sem var algjörlega mislukkað að öllu leyti og einungis gert til að íþyngja fyrirtækjum,“ segir Ævar.