Félagið E-Content, sem fyrr á árinu var sektað um tíu milljónir króna fyrir hærri lántökukostnað en íslensk lög leyfa, hefur sætt dagsektum frá því í júlí og skuldar því um 80 milljónir króna. Áfrýjunarnefnd neytendamála staðfesti í byrjun nóvember ákvörðun Neytendastofu frá því fyrr á árinu en þá var fyrirtækið sektað um tíu milljónir króna. Þeirri upphæð til viðbótar hefur fyrirtækið sætt dagsektum frá því 26. júlí á þessu ári, eða í 140 daga. Dagsektirnar nema hálfri milljón króna á dag og samtals því um 70 milljónum króna. Heildarskuldirnar gagnvart stofnuninni hlaupa því á um 80 milljónum króna, að höfuðstóli.
E-Content hefur, þar til nýlega, verið rekstraraðili Kredia, Hraðpeninga, Múla, Smálána og 1919. Félögin eru nú öll komin með danskt lén og á vefsíðum þeirra kemur fram að þau séu í eigu danska fyrirtækisins Ecommerce 2020. Það var Viðskiptablaðið sem greindi fyrst frá því.
Segja má að smálánafélögin, sem áður voru í eigu tveggja óskyldra félaga, hafi verið á hlaupum undan íslenskum eftirlitsaðilum. Þannig samþykkti Alþingi í mars 2013 ný lög um smálánastarfsemi eftir að heildarkostnaður á ársgrundvelli af lánunum hafði numið allt að 600%. Hámark var sett á kostnaðinn við lántökuna og mátti hann eftir lagasetninguna ekki nema hærra hlutfalli af láninu á ársgrundvelli en 50%.
Við því brugðust fyrirtækin með því að bjóða rafbækur til sölu samhliða lántökunni. Í fyrrahaust staðfesti áfrýjunarnefnd neytendamála 1,5 milljóna króna stjórnvaldssekt á smálánafyrirtækin Kredia og Smálán, fyrir gróf brot. Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að gjald sem smálánafyrirtækin innheimtu í formi rafbóka væri ekkert annað en yfirskin og tilraun til að sniðganga lög um neytendalán.
Það var svo í vor sem tíu milljóna króna stjórnvaldssekt var lögð á E-Content, fyrir brot gegn fyrri ákvörðun stofnunarinnar. Í úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála, sem aftur staðfesti ákvörðun Neytendastofu að öllu leyti, segir að neytandi sem fær 20 þúsund krónur að láni þurfi að greiða 6.016 krónur fyrir rafbækur í tengslum við lántökuna. Honum stendur svo hvort tveggja til boða að staðgreiða rafbækurnar eða fá lán til kaupa á þeim. Hafið sé yfir vafa að kaupverð þeirra rafbóka sem fyrirtækið bjóði til sölu í tengslum við lánveitingarnar sé í raun kostnaður sem neytandi þurfi að greiða í tengslum við lánssamninginn.
Nú eru smálánafélögin flúin frá Íslandi og rekin á dönsku léni en fjölmiðlum hefur í gegn um tíðina reynst erfitt að hafa uppi á eigendum félaganna.
Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri neytendaréttarsviðs hjá Neytendastofu, segir í samtali við Fréttablaðið að stofnunin eigi eftir að skoða málið. Regluverk um smálánastarfsemi sé ólíkt milli landa, þó lögin um neytendalán séu samevrópsk. Á Íslandi gildi reglur um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en hún segir til um heildarkostnað af láni á ársgrundvelli. Þórunn segir að Neytendastofa eigi samstarf við systurstofnanir í Evrópu. Hún segir að fyrirtæki sem hafi starfsemi á Íslandi þurfi að lúta íslenskum lögum.
Ekki tókst að hafa uppi á stjórnendum E-Content við vinnslu fréttarinnar.
