Um 47 prósent Íslendinga ætla að hafa hamborgarhrygg í kvöldmat á aðfangadag samkvæmt nýrri könnun MMR. Næst vinsælasti jólamaturinn er lambakjöt (annað en hangikjöt) en 13 prósent munu, samkvæmt könnuninni, gæða sér á því.
Kalkúnn eða rjúpur koma þar næst, en um 8 prósent sögðust ætla að hafa slíkt í matinn. Naut verður á borðum 5 prósenta landsmanna og um 3 prósent verða með önd.
Þá ætla 15 prósent að hafa aðra rétti en þeir sem greint er frá hér að ofan.
Framsóknarmenn vilja lambakjöt og Miðflokksmenn rjúpur
Lambakjöt nýtur meiri vinsælda sem aðalréttur á aðfangadag meðal stuðningsfólks Framsóknarflokks heldur en stuðningsfólks annarra flokka. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Framsóknarflokk sögðust 20 prósent ætla að borða lambakjöt (annað en hangikjöt) sem aðalrétt að aðfangadag.
Rjúpur verða hvað helst á borðum hjá stuðningsfólki Miðflokksins (20 prósent) og af þeim sem styðja Flokks fólksins sögðust heil 72 prósent ætla að borða hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld. Stuðningsfólk Pírata var líklegra en stuðningsmenn annarra flokka til að ætla að borða annað en það sem talið var upp í könnuninni.
Í könnuninni tóku þátt 923 einstaklingar 18 ára og eldri og var hún framkvæmd dagana 12.-15. desember.
