Gunnar Birgisson og fjölskylda færðu hjarta- og lungnadeild Landspítalans aðgerðargleraugu að gjöf. Aðgerðargleraugun sýna myndskeið úr aðgerðum og munu þau nýtast vel, meðal annars í kennslu.
Gunnar dvaldi á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans á dögunum eftir að hann fékk alvarlegt hjartaáfall. Samkvæmt frétt á vef Landspítalans er hann nú á batavegi og lítur björtum augum á framtíðina. Hann þakkar fyrir meðferðina og umönnunina á deildinni með því að gefa sjúkrahúsinu aðgerðargleraugu. Tækið nýtist bæði skurðteyminu á deildinni og nemendum í faginu.
„Þetta eru sérútbúin aðgerðargleraugu sem gera kleift að taka upp það sem skurðlæknirinn sér einn í hjartanu og streyma því beint til teymis á skurðstofu eða í kennslustofu. Gleraugun bæta því kennslu frá því sem nú er þar sem nemarnir geta séð það sem gert er án þess að vera inni á skurðstofunni. Nú er skurðlæknirinn sem stýrir aðgerðinni oft sá eini sem sér beint inn í hjartað og getur ekki sýnt öðrum.“
Gunnar og eiginkona hans, Vigdís Karlsdóttir, hittu Bjarna Torfason yfirlækni hjarta- og brjóstholsskurðlækninga sem gerði aðgerðina á Gunnari eftir hjartaáfallið. Gjöfina ákváðu þau að gefa til þess að þakka lífgjöfina.
