Skoðun

Fleiri lög sem brjóta má án afleiðinga

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir skrifar
Á dögunum skipaði forsætisráðherra starfshóp hvers yfirlýsta markmið er að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Verðugt verkefni og þarft enda einungis um 22% Íslendinga sem treysta Alþingi. Hins vegar má setja spurningarmerki við þá nálgun að ætla sér að efla traust á stjórnmálum með því að skipa vinnuhóp utan um innleiðingu á alþjóðlegum tilmælum og stöðlum er varða gagnsæi og góða stjórnsýslu. Það er góðra gjalda vert að lögfesta alþjóðlegar skuldbindingar en það sendir röng skilaboð að klæða það búningi eflingar trausts á stjórnmálum. Innleiðing skuldbindinga er sjálfsagður hluti af starfi framkvæmdar- og löggjafarvalds.

En, á meðan ríkisstjórnin og stjórnarþingmenn eru ekki einu sinni reiðubúin að viðurkenna að það grafi undan trausti almennings á stjórnmálum að dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, sem braut lög við skipan dómara, sitji í þeirra skjóli, er til lítils að breyta og bæta þau lög sem ráðherrar geta brotið án afleiðinga. Á meðan forsætisráðherra gerir engar athugasemdir við að starfa með fjármálaráðherranum Bjarna Benediktssyni, sem geymir eignir í skattaskjóli, felur óþægilegar skýrslur fram yfir kosningar og hefur bein afskipti af rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattaskjólabraski fjölskyldu sinnar, er hræsni að ætlast til þess að almenningur finni fyrir trausti í garð stjórnmálamanna.

Í öllum ofangreindum tilfellum voru reglur, lög og siðareglur til staðar, sem hefðu átt að standa í vegi fyrir pólitískum skipunum dómsmálaráðherra í dómarastöður og fjármálapukri fjármálaráðherra. Gleymum ekki upplýsingalögum, sem dómsmálaráðherra braut vegna persónulegra hagsmuna Bjarna Benediktssonar og felldi síðustu ríkisstjórn.

Traust er áunnið. Stjórnmálamenn eiga ekki að vænta þess að vinna traust almennings með því að lögfesta almenna og sjálfsagða staðla alþjóðasamfélagsins um gagnsæja og vandaða stjórnsýslu. Því þegar stjórnvöld eru ekki reiðubúin að fylgja boðorðunum tíu er til lítils að setja boðorðin tuttugu.

Höfundur er þingflokksformaður Pírata. 




Skoðun

Sjá meira


×