Geir Sveinsson, þjálfari íslenska landsliðsins í handbolta, sagði óvíst hvort Aron Pálmarsson verði klár í slaginn þegar EM í handbolta hefst á föstudaginn þegar Vísir heyrði í honum.
Geir greindi frá þessu í viðtali við Rúv fyrr í dag en Aron hvíldi í dag og var ekki með íslenska liðinu sem steinlá gegn Þýskalandi ytra í seinasta æfingarleik liðsins fyrir mót.
„Í morgun ræddum við saman með sjúkraþjálfarateyminu og ákváðum að hann myndi sitja hjá í dag því hann fyrir stífleika og eymslum í baki, þetta tók sig fyrst upp eftir fyrri leikinn gegn Þýskalandi,“ sagði Geir og hélt áfram:
„Eftir leikinn finnur hann fyrir stífleika í baki og það var tekin ákvörðun um að hvíla hann á æfingunni í gær og sjá hvernig staðan yrði. Það hefur miðast hægt áfram og tilfinningin var sú sama í morgun. Þessvegna er í raun erfitt að segja hvort hann verði klár á EM.“
Geir sagði að það væri ekki útilokað að hann yrði klár í leikinn gegn Svíum á föstudaginn
„Hann verður í meðhöndlun hjá sjúkraþjálfarateyminu, þeir eru bjartsýnir með framhaldið gera en héldu að sama skapi að hann yrði betri í dag. Þetta er erfið staða og við viljum í raun ekki gefa neitt út ennþá.“
Geir hafði ekki sest niður með Aroni og rætt framhaldið en hann sagði það á dagskrá þegar þeir kæmu aftur upp á hótel.
„Ég hef ekki rætt þetta persónulega við hann en við munum taka ákvörðun með sjúkraþjálfara á næstunni,“ sagði Geir og bætti við:
„Við munum bæta við manni ef hann missir af fyrsta leik, það er hægt að skipta leikmönnum inn og út tvisvar í riðlakeppninni og það gæti vel verið að ég bæti við leikmanni. Það er önnur óvissa,“ sagði Geir sem tók undir að það væri að nægu að hugsa þegar hann færi á koddan í kvöld.
