Sólris var í Reykjavík í morgun klukkan 10.54 en sólsetur nú síðdegis klukkan 16.20. Í borginni hefur daginn þegar lengt um eina klukkustund og sautján mínútur frá vetrarsólstöðum, samkvæmt tímtalsvefnum timeanddate.com.
Fyrstu tvær vikurnar eða svo eftir vetrarsólstöður er lenging dagsins svo lítil að það er talað um að munurinn nemi bara hænufeti á dag. En svo fer breytingin að gerast hraðar og þessa dagana nemur lenging birtutímans yfir fimm mínútum á dag í Reykjavík og yfir sjö mínútum í nyrstu byggð landsins.
Tölurnar eru þannig mismunandi eftir því hvar menn eru staddir á landinu. Þannig var lengd dagsins í Reykjavík í dag 5 klukkustundir og 25 mínútur en á Akureyri 4 klukkustundir og 44 mínútur, um fjörutíu mínútum styttri en í Reykjavík.

Daginn lengir hins vegar hraðar fyrir norðan en sunnan. Þannig er lenging frá vetrarsólstöðum orðin ein klukkustund og 17 mínútur í Reykjavík, en ein klukkstund og 40 mínútur á Akureyri. Í Grímsey hefur daginn lengt um tvær klukkustundir og 3 mínútur frá 21. desember en í Vestmannaeyjum um eina klukkustund og 11 mínútur.
Og eftir eina viku héðan í frá verða 40 mínútur búnar að bætast við daginn í Reykjavík, birtulengingin frá vetrarsólstöðum þá orðin um tvær klukkustundir. Þá verður hægt að fara að lýsa því yfir að skammdegið sé yfirstaðið og minna sig á að ekki eru nema þrír mánuðir í sumardaginn fyrsta, þann 19. apríl næstkomandi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 með myndum Egils Aðalsteinssonar kvikmyndatökumanns af víkjandi skammdeginu í Reykjavík í dag: