Serbum hefur hreinlega verið meinað að mæta á leikinn í kvöld og leikmenn Serba þurfa því að mæta sterku liði Króata og um ellefu þúsund öskrandi Króötum í stúkunni. Uppselt er á leiki dagsins í Split.
Ég fékk mér lítinn göngutúr um svæðið áðan og þá voru þegar komnir hundruð vopnaðra lögregluþjóna, óeirðabílar og þrír slökkvibílar. Hér ætla menn að vera klárir fyrir allt.
Áhorfendur eru ekki enn byrjaðir að koma sér á völlinn en það er allt orðið klárt í höllinni.
Áður en kemur að leik Króata og Serba fer leikur Íslands og Svíþjóðar fram í keppnishöllinni. Vonandi verða margir komnir þá og við fáum flotta stemningu á fyrsta leik Íslands.
Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst klukkan 17.15 og er í beinni textalýsingu á Vísi.
