Endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar rannsakar nú meint fjármálamisferli fyrrum deildarstjóra sölu- og fjármáladeildar Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að þann 21. desember síðastliðinn hafi framkvæmdastjóra þess borist ábending um þetta mögulega misferli fyrrum deildarstjórans, sem nú er látinn.
Skoðun stjórnenda fyrirtækisins leiddi í ljós að bókhaldsgögn studdu þessar grunsemdir. Stjórn fyrirtækisins og eiganda, sem er Reykjavíkurborg, var þegar tilkynnt um þessar grunsemdir. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hóf þegar rannsókn málsins. Starfsfólki malbikunarstöðvarinnar var greint frá þessu máli í dag.
Í janúar á síðasta ári var fjallað um gagnrýni Viðskiptaráðs Íslands á að Malbikunarstöðin Höfði er að fullu í eigu Reykjavíkurborgar og er stjórn fyrirtækisins pólitískt skipuð.
Samkvæmt tilkynningunni leiddi frumskoðun Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar í ljós að hið meinta misferli nemur rúmlega 30 milljónum króna og er talið að það hafi staðið yfir frá 2010 til 2015. Ekki eru vísbendingar um að deildarstjórinn hafi átt vitorðsmenn innan fyrirtækisins.
Niðurstöður Innri endurskoðunar verða lagðar fyrir Endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar, sem hefur það hlutverk að ákveða með framhald málsins.
Grunur um 30 milljóna króna fjármálamisferli

Tengdar fréttir

Viðskiptaráð Íslands gagnrýnir eign borgarinnar á malbikunarstöð
Markaðshlutdeild Malbikunarstöðvarinnar Höfða sem er í eigu Reykjavíkurborgar nemur 73 prósentum í úboðum Reykjavíkurborgar á árunum 2008-2016.