Erlent

Starfsmaður Facebook yfirheyrður í tengslum við Rússarannsóknina

Kjartan Kjartansson skrifar
Facebook birti fjölda auglýsinga fyrir rússneskar áróðurssíður. Fyrirtækið sendi einnig starfsmann sem vann innan starfrænnar deildar framboðs Trump.
Facebook birti fjölda auglýsinga fyrir rússneskar áróðurssíður. Fyrirtækið sendi einnig starfsmann sem vann innan starfrænnar deildar framboðs Trump. Vísir/AFP
Að minnsta kosti einn starfsmaður Facebook sem vann með forsetaframboði Donalds Trump hefur verið yfirheyrður í tengslum við rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins, á því hvort framboðið hafi átt í samráði við rússnesk stjórnvöld.

Tímaritið Wired greinir frá þessu og hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni. Facebook sendi Trump-framboðinu starfsmann sem vann með teymi sem sá um herferðir á starfrænum miðlum.

Facebook og aðrir samfélagsmiðlar hafa legið undir ámæli fyrir að hafa birt auglýsingar fyrir áróðurssíður frá rússnesku fyrirtæki með tengsl við rússnesk stjórnvöld. Slíkar auglýsingar náðu til um 126.000 bandarískra Facebook-notenda fyrir forsetakosningarnar árið 2016.

Vangaveltur hafa verið um að framboð Trump hafi mögulega látið rússneskum útsendurum í té upplýsingar sem hefðu hjálpað þeim að velja hvaða notendur fengu auglýsingar. Facebook hefur sagt að skörunin í því að hverjum auglýsingar Trump-framboðsins og rússnesku útsendaranna beindust hafi verið óveruleg.

Fulltrúar fleiri tæknifyrirtækja hafa verið kölluð til viðtals hjá Mueller, þar á meðal greiningarfyrirtækið Cambridge Analytica sem aðstoðaði framboð Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×