Innlent

Tómas Tómasson tónlistarmaður fallinn frá

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tómas Tómasson á tónleikum með Stuðmönnum í Eldborg.
Tómas Tómasson á tónleikum með Stuðmönnum í Eldborg. vísir/ernir
Einn merkasti tónlistarmaður Íslands, Tómas Tómasson, er fallinn frá, 63 ára að aldri eftir skammvinn en erfið veikindi. Tómas er líkast til þekktastur fyrir að að hafa verið í Stuðmönnum, hvar hann lék meðal annars á bassa, en það gerði hann einnig með Þursaflokknum og fleiri hljómsveitum.

Tómas hefur líklega leikið inn á fleiri hljómplötur en nokkur annar Íslendingur og stjórnað upptökum á þeim mörgum. Tónlistarheimurinn er sleginn vegna fráfalls Tómasar en hann var einkar vinsæll og þótti með skemmtilegri mönnum.

Félagi hans úr Stuðmönnum, Valgeir Guðjónsson, minnist hans á Facebook-síðu sinni  með lagi Chuck Berry, Route 66, og segir:

„Í dag var óvenjulegur dagur - á árvissu afmæli mínu fékk ég fregnina um að Tómas Magnús Tómasson aldavinur minn og félagi hefði kvatt þessa okkar skömmu jarðvist. Ég syrgi hanni og kveð með virktum - einstakur öðlingur til orðs og æðis,

Á 66 ára afmælisdegi sé ég á bak förunauti í hálfa öld og mun sakna hans allar götur.

Valgeir“





Þá minnist Björgvin Halldórsson, söngvari, einnig vinar síns og samstarfsmanns og skrifar:

„Vinur minn og samstarfsmaður til margra ára Tómas Magnús Tómasson er fallinn frá. Þetta er sorgarfregn sem erfitt er að meðtaka. Hann var með eindæmum skemmtilegur og orðheppinn og afbrags tónlistarmaður. Ég geymi margar minningarnar um Tomma og sérstaklega okkar tíma í Englandi þegar við bjuggum saman í Dartford og þegar við unnum að Vísnaplötunum góðu. Guð blessi minningu Tomma...Hvíl í friði vinur“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×