Erlent

FBI varar við að umdeilt minnisblað verði gert opinbert

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Adam Schiff og Devin Nunes, nefndarmenn í njósnamálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Adam Schiff og Devin Nunes, nefndarmenn í njósnamálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Vísir/Getty
Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hefur lagst gegn því að umdeilt minnisblað frá rannsókn FBI og Roberts Mueller, sérstaks saksóknara dómsmálaráðuneytisins á kosningabaráttu Trump, verði opinberað. Þingmenn Repúblikana hafa kallað eftir því að minnisblaðið verði gert opinbert.

Um er að ræða fjögurra blaðsíðna langt minnisblað sem David Nunes, þingmaður Repúblikana, skrifaði. Í því heldur hann fram að öryggisstofnanir hafi brotið á rétti Trump og beitt ólöglegum leiðum til að hlera hann og starfsmenn hans. Þá er því haldið fram að rannsókn FBI byggi á umdeildri skýrslu sem unnin var af fyrirtækinu Fusion GPS og fjallaði meðal annars um tengingar Trump við Rússland.

Leynd hvílir yfir minnisblaðinu og hafa engir séð það nema meðlimir nefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um njósnamál, en Nunes stýrir nefndinni.

Ásakanirnar verri en Watergate

„Við höfum alvarlegar áhyggjur af því að staðreyndum sé sleppt úr minnisblaðinu sem grefur undan trúverðugleika þess,“ sagði í yfirlýsingu frá FBI.

Úr herbúðum Trump berast þó fregnir að minnisblaðið verði opinberað eins fljótt og auðið er, þrátt fyrir mótmæli stofnunarinnar. Demókratar telja að minnisblaðið sé tilraun til að draga undan trúverðugleika á rannsókninni.

Einn þingmaður Repúblikanaflokksins segir ásakanirnar í minnisblaðinu vera „verri en Watergate“. Sjálfur hefur Nunes sagt lítið en varaformaður nefndarinnar, Demókratinn Adam Schiff, segir minnisblaðið var fullt af rangfærslum og vitnað sé í leynileg skjöl sem flestir meðlimir nefndarinnar hafi viðurkennt að þeir hafi ekki séð.

Nefndin greiddi atkvæði um að minnisblaðið yrði opinberað á mánudag og hefur Trump frest fram að helgi til að ákveða hvort að minnisblaðið eigi að vera birt í heild sinni eða hluti af því verði afmáður vegna trúnaðarupplýsinga.


Tengdar fréttir

Árásum íhaldsmanna á FBI fjölgar

Útlit er fyrir að Repúblikanar séu með markvissum hætti að reyna að grafa undan trúverðugleika FBI og Mueller. Í það minnsta meðal stuðningsmanna flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×