Innlent

Deilan um dómarana og yfirráðaréttur líkamans í Víglínunni

Atli Ísleifsson skrifar
Það hefur mikið farið fyrir umræðum um stöðu dómsmálaráðherra vegna skipunar fyrstu fimmtán dómaranna í Landsrétt á síðasta ári og ljóst að síðasta orðið hefur ekki verið sagt um þau mál.

Þingmaðurinn Jón Þór Ólafsson, fulltrúi Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og varaformaður nefndarinnar, og Jón Steindór Valdimarsson, fulltrúi Viðreisnar í nefndinni, mæta til Heimis Más Péturssonar fréttamanns í Víglínuna á Stöð 2 og Vísi í hádeginu. Nefndin hefur dómaramálið enn til skoðunar og hafa Píratar þegar krafist þess að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segi af sér embætti.

Þá verður réttur einstaklingsins til yfirráða yfir líkama sínum allt frá vöggu til grafar til umræðu í Víglínunni. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, mælti fyrir tveimur frumvörpum á Alþingi í vikunni sem varða þessi mál og mætir í Víglínuna til að ræða þau og fleiri. 

Annars vegar mælti hún fyrir frumvarpi um að umskurður á drengjum verði bannaður samkvæmt lögum með sama hætti og umskurður á kynfærum stúlkna. Samtök gyðinga í Evrópu hafa þegar brugðist neikvætt við þessu frumvarpi. Hins vegar er það frumvarp um að ef einstaklingur hafi ekki fyrir dauða sinn lagst gegn því að líffæri úr honum verði nýtt til lækninga á öðrum einstaklingum, verði litið svo á að hann hafi heimilað það.

Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi klukkan 12:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×