Körfubolti

Pétur Guðmunds og Kareem Abdul-Jabbar hittust á Stjörnuhelginni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Guðmundsson ræðir við Kareem Abdul-Jabbar.
Pétur Guðmundsson ræðir við Kareem Abdul-Jabbar. Ágúst Björgvinsson
Pétur Guðmundsson er eini íslenski körfuboltamaðurinn sem hefur spilað í NBA-deildinni í körfubolta. Hann var eins og fleiri gamlir NBA-leikmenn meðal gesta á Stjörnuhelgi NBA sem fram fór í Los Angeles um helgina.

Gömlu goðsagnirnar hittust meðal annars í matarboði á vegum NBA-deildarinnar og þar mætti Pétur og hitti nokkra af gömlu liðsfélögum sínum en Pétur spilaði með Portland Trail Blazers, Los Angeles Lakers og San Antonio Spurs á árunum 1981 til 1989.

Pétur hitti meðal annars Kareem Abdul-Jabbar, sexfaldan NBA-meistara, sexfaldan besta leikmann deildarinnar og stigahæsta leikmann NBA fyrr og síðar. Þeir eru einmitt fyrrum liðsfélagar.

Pétur var varamaður Kareem Abdul-Jabbar hjá Los Angeles Lakers tímabilið 1985 til 1986. Abdul-Jabbar valdi hann þá meðal annars besta varamiðherja NBA-deildarinnar í blaðaviðtali.

Abdul-Jabbar var þarna 38 ára gamall en Pétur 27 ára. Abdul-Jabbar var með 23,4 stig, 6,1 frákast og 3,5 stoðsendingar að meðaltali á 33,3 mínútum í leik þetta tímabil en Pétur var með 7,3 stig og 4,8 fráköst að meðaltali á 16,0 mínútum í leik.

Pétur kom inn í byrjunarlið Lakers í tveimur leikjum þegar Abdul-Jabbar glímdi við meiðsli og var með 11,5 stig og 7,0 fráköst að meðalali á 26,0 mínútum í þeim.  

Pétur spilað alls 150 deildarleiki á öllum NBA-ferli sínum og hann var að auki með samtals 14 leiki í úrslitakeppni NBA.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×