Innlent

Lögregla handtók hnífamann og leitar óþægilega nærgönguls dróna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mennirnir þrír hafa verið í gæsluvarðhaldi í viku.
Mennirnir þrír hafa verið í gæsluvarðhaldi í viku. Vísir/eyþór
Maður var handtekinn á áttunda tímanum í kvöld eftir að hafa mundað hníf og hótað starfsmanni verslunar í miðborginni. Þá var tilkynnt um dróna á flugi við heimili að Blikahólum á níunda tímanum, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um klukkan 19:30 í kvöld var tilkynnt um mann sem gekk inn í verslun í miðbæ Reykjavíkur. Í dagbók lögreglu er maðurinn sagður hafa verið mjög ógnandi og viljað fá ákveðna vöru afgreidda en hafði ekki viðeigandi skilríki meðferðis.

Þá dró maðurinn upp hníf og hótaði starfsmanni en hvarf svo á braut. Maðurinn var handtekinn þrettán mínútum síðar af lögreglu og vistaður í fangageymslu.

Á níunda tímanum í kvöld var tilkynnt um dróna á flugi fyrir utan heimili að Blikahólum. Flygildið sást á flugi í um eins meters fjarlægð frá glugga á húsinu og hefur lögregla málið nú til skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×