Tónlistarkonan Svala Björgvinsdóttir fékk snert af heilablóðfalli síðastliðinn þriðjudag og var flutt á spítala í Los Angeles vegna þess. Greint er frá málinu á vef RÚV en þar segir að Svala hafi fengið það sem kallast á ensku transient ischemic attac eða TIA.
Svala hlaut engan varanlegan skaða af þessu og er á góðum batavegi. Segja læknar að hún og maður hennar, Einar Egilsson, hafi brugðist hárrétt við með því að leita strax til læknis.
„TIA-kast hefur verið nefnt forslag en það er tímabundin skerðing á blóðflæði í heila sem verður vegna þess að æð stíflast vegna blóðtappa. Við þetta verður blóðþurrð sem veldur svokölluðum brottfallseinkennum eins og skyndilegri kraft- eða skynminnkun í andliti, hendi eða fæti, oftast öðrum megin. Fólk getur líka upplifað taltruflanir, svo sem þvoglumælgi eða erfiðleika við að finna orð eða skilja tal. Einnig geta verið sjóntruflanir eins og blinda á öðru auga“, segir Björn Logi Þórarinsson, taugalæknir á Landsspítala háskólasjúkrahúsi, í samtal við RÚV.
Fyrr í þessari viku átti tónlistarkonan að fljúga til Íslands þar sem til stendur að hún komi fram á úrslitakeppni Söngvakeppninnar í Laugardalshöll þann 3. mars næstkomandi. Að því er fram kemur á vef RÚV hafa læknar Svölu í Los Angeles gefið henni leyfi til að fljúga og koma fram hér heima en hún verður áfram undir eftirliti lækna. Framlag Íslands í Eurovision í ár verður valið á úrslitakvöldinu.
Svala fékk snert af heilablóðfalli
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
