Skoðun

Slysasleppingar

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Fáir horfa á sauðkindina sem nýbúa á Íslandi. Hún sá til þess að þjóðin hvorki svalt né króknaði. Fyrir það hefur hún notið virðingar og ýmsir stigið á stokk til að verja hana fyrir óviðeigandi árásum.

Þegar sauðkindin kom til landsins með landnámsfólki tók íslenski laxinn á móti þeim. Hann hafði búið hér löngu fyrir komu þessara gesta og hefur ekki síður verið búbót landsmanna alla tíð. Því er forvitnilegt að bera saman virðingarstig sauðkindarinnar og íslenska laxins.

Nú berast fréttir af því að sjókví fyrir laxeldi á Vestfjörðum hafi sokkið og önnur skemmst. Það kom fram að í einni sjókví eru 500-600 tonn af norskum eldislaxi. Það gæti jafngilt allt að 130.000 tíu punda löxum. Framleiðandinn telur að enginn lax hafi sloppið. Umhverfisstofnun hefur þó kallað eftir frekar gögnum í málinu.

Landssamband fiskeldisstöðva réð fyrrverandi forseta Alþingis sem framkvæmdastjóra eftir að hann hætti þar. Málflutningur framkvæmdastjórans um verðmætasköpun og ný störf hefur verið fyrirferðarmikill og atvinnugreinin í mikilli sókn. Áhyggjur hans af verndun íslenska laxastofnsins og íslenskrar náttúru eru engar.

Framkvæmdastjórinn telur eðlilegt að norskur eldislax sé fluttur til Íslands og alinn við strendur landsins í opnum sjókvíum. Kvíum sem vitað er að halda ekki öllum fiski. Það “slys” sem varð nú segir sína sögu um það gríðarlega magn og þar með þá gríðarlegu áhættu sem íslenski laxastofninn og þar með íslensk náttúra býr við. Auk þess er þekkt að mengun eldisins er umtalsverð.

Svokallaðar slysasleppingar eru tíðar í fiskeldi í sjókvíum og ljóst að enginn hvati er hjá fyrirtækjum sem slíkt stunda að tilkynna þegar fiskur sleppur út. Slysið í Tálknafirði er skýrt dæmi um það. Viðhorfið gagnvart náttúrunni endurspeglast í nýlegu viðtali við framkvæmdastjóra Landssambands fiskeldisstöðva þegar hann sagði að “slysasleppingum” færi fækkandi og nær væri að horfa á það jákvæða. Hann gleymdi hörmulegum afleiðingum fiskeldis á norska laxastofninn og norska náttúru.

Það má spyrja hvort fyrrverandi forseti Alþingis hefði tekið það í mál á meðan hann var þingmaður, að fluttar væru inn norskar kindur í miklu magni og þeim komið fyrir á Vestfjörðum til að auka þar atvinnu. Ef þær færu út fyrir það svæði sem þeim væri ætlað yrði líklega hverfandi blöndun við íslenska stofninn.

Stjórnvöld virðast ekki hafa markað sér stefnu í fiskeldi og því spurning hvort skaðinn hefur þegar orðið. Hver ber þá ábyrgð? Enn er talið eðlilegt að auka við framleiðsluna sem þegar er hafin. Náttúran virðist vera undir í baráttunni.

Íslenskur sjávarútvegur er ábyrgur og sjálfbær. Af hverju er ekki horft til þess árangurs sem við höfum náð í sjávarútvegi í sátt við náttúruna. Sú stefna skilar góðu afurðaverði og fjölda starfa. Er ekki rétt að horfa til þess að nýta íslenska laxastofninn í fiskeldi, ef við viljum efla þá atvinnugrein? Skapa landinu sérstöðu á þessu sviði og búa til störf við seiðaeldi og framleiðslu úr íslenskum stofni.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×