Skoðun

Ókeypis strætó er vond hugmynd

Pawel Bartoszek skrifar
Í grófum dráttum má segja að á seinustu árum hafi rekstrartekjur vegna strætóhluta Strætós skipst þannig að sveitarfélögin hafa skaffað 3 milljarða, notendur 2 milljarða og ríkið 1 milljarð.

Nokkur framboð hafa óbeint sett fram þá stefnuskrá að ríkið hætti að borga þennan eina milljarð í strætó og noti hann frekar til að byggja mislæg gatnamót. Einhver framboð hafa jafnframt viðrað þá hugmynd að gefa fólki frítt í strætó og skera þannig 2 milljarða til viðbótar af rekstrartekjunum.

Ef hvort tveggja er gert munu rekstrartekjur Strætós lækka um helming. Til að dæmið gangi upp þarf annaðhvort að nánast tvöfalda framlög sveitarfélaganna, eða skera niður þjónustu. Það má geta sér til hvor leiðin sé líklegri að verði farin.

Þar sem almenningssamgöngur eru góðar kosta þær sitt. Strætófarþegar í Reykjavík þurfa ekki lélegri, ókeypis þjónustu. Þeir þurfa betri þjónustu. Þótt það geti verið allt í lagi að fella niður fargjöld tímabundið sem part af einhverju markaðsátaki er tómt mál að ætla sér að að efla almenningssamgöngur ef menn ætla í leiðinni afþakka tekjur af fargjöldum notenda.

Höfundur er varaþingmaður Viðreisnar.






Skoðun

Sjá meira


×