Erlent

Neyðargögn berast loks til Austur-Ghouta

Kjartan Kjartansson skrifar
Rússneskir hermenn fylgjast með vörubíl með neyðargögnum í Damaskus.
Rússneskir hermenn fylgjast með vörubíl með neyðargögnum í Damaskus. Vísir/AFP
Bílalest með neyðargögn komst inn á svæði uppreisnarmanna í austurhluta Ghouta í Sýrlandi í dag þrátt fyrir áframhaldandi loftárásir þar. Þetta eru fyrstu neyðargögnin sem berast til svæðisins í fleiri vikur.

Alls eru 46 bílar í lestinni og flytja þeir matvæli og önnur neyðargögn til 27.500 manns á svæðinu, þrátt fyrir að fregnir hafi borist að enn sé verið að varpa sprengjum þar. Þrátt fyrir heit Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, um fimm klukkustunda dagleg vopnahlé og ákall öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um mánaðarlangt vopnahlé hefur bílalestin ekki komist af stað fyrr en nú.

Reuters-fréttastofan hefur eftir starfsmanni Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar að embættismenn sýrlenskra stjórnvalda hafi lagt hald á um 70% neyðargagnanna áður en bílalestin lagði af stað. Ríkisstjórnin reyni með því að koma í veg fyrir að uppreisnarmennirnir fái aðhlynningu.

Fjórtán manns féllu í loftárásum stjórnarhersins í nótt, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hundruð manna hafa fallið í herför stjórnarhersins gegn uppreisnarmönnunum í Austur-Ghouta síðustu vikur. Sameinuðu þjóðirnar telja að um 400.000 óbreyttir borgarar séu fastir á svæðinu og að matvæli og sjúkrarvörur séu orðnar af skornum skammti.

Bandaríkjastjórn hefur fordæmt árásir stjórnarhersins og rússneskra stjórnvalda og sakar þau um að drepa óbreytta borgara.


Tengdar fréttir

Stjórnarliðar streymdu inn í Austur-Ghouta

Önnur daglega fimm klukkustunda pásan á átökunum í Austur-Ghouta, nærri höfuðborginni Damaskus í Sýrlandi, stóð ekki undir nafni frekar en sú fyrsta.

Pútín skipar fyrir um fimm klukkustunda daglegt vopnahlé í Ghouta

Vladimir Pútín Rússlandsforseti vill að gert verði daglegt fimm klukkustunda hlé á árásum á Ghouta-svæðið í Sýrlandi. Árásir Sýrlandshers á svæðið hafa haldið áfram undanfarna daga, þrátt fyrir ályktun um vopnahlé sem samþykkt var í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á laugardag.

Fyrstu bílalestirnar til Austur-Ghouta

Búist er við að Sýrlandsstjórn heimili hjálparsamtökum að senda nauðsynjar til Douma í Austur-Ghouta. Nærri 200.000 þurfa nauðsynlega á hjálp að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×