Handbolti

Erlingur: Vanmetum stundum okkar eigin deild

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Erlingur Richardsson segir að það sé gott starf unnið í íslenskum handbolta og að ungir leikmenn þurfi ekki endilega að fara út fyrir landsteinana til að verða betri leikmenn.

Erlingur, sem tók við landsliði Hollands í haust, fékk það verkefni að koma því í umspil um sæti á HM 2019. Það tókst en liðið mætir silfurliði Svía frá EM í Króatíu í umspilinu í júní.

„Það er nokkuð stórt verkefni fyrir okkur enda erfiðasta liðið sem var í pottinum. Það er engu að síður áhugavert og spennandi verkefni,“ sagði Erlingur í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum í gær.

Erlingur hefur átt góðan þjálfaraferil. Eftir að hann varð Íslandsmeistari sem þjálfari HK árið 2012 hélt hann til Austurríkis þar sem hann tók við Westwien. Eftir það stýrði hann Füchse Berlin sem varð tvívegis heimsmeistari félagsliða undir hans stjórn.

Hann segir að Olísdeildin sé sterkari en margan ef til vill grunar og er ánægður með tímabilið í ár. „Deildin er virkilega skemmtileg. Hún er að mestu samansett af ungum leikmönnum og ég held að við séum að vanmeta deildina okkar. Það er ekki endilega alltaf lausnin fyrir ungu leikmennina að fara út til að verða betri,“ sagði hann og bætti við að þjálfun í öðrum löndum væri ekki endilega betri en hér á landi.

Erlingur ræðir meðal annars í viðtalinu um þann varnarleik sem hann þróaði, fyrst með HK og svo ÍBV á sínum tíma, en það má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×