Lögreglan hafði í gærkvöldi afskipti af einstaklingi sem sagður er hafa veist að starfsmönnum í búsetuúrræði hjá Reykjavíkurborg. Hann á jafnframt að hafa brugðist illa við athugasemdum lögregumanna og er hann sagður hafa slegið einn þeirra.
Lögreglumaðurinn þurfti að sögn að leita sér aðstoðar á slysadeild vegna höggsins en meiðsl hans reyndust þó minniháttar. Málalyktir fylgja ekki sögunni og ekki greint frá því hvort einstaklingurinn hafi verið handtekinn vegna málsins.
Þá stöðvaði lögreglan kannabisræktun í Breiðholti á áttunda tímanum í gærkvöldi. Í skeyti lögreglu segist hún hafa lagt hald á rúmlega tuttugu plöntur og „eitthvað magn“ af tilbúnu efni. Á sama stað fannst jafnframt bruggun sem einnig var haldlögð.
Að sama skapi voru höfð afskipti af þremur einstaklingum í gærkvöldi sem grunaðir eru um vörslu fíkniefna.

